Ferill 109. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 109 . mál.


Sþ.

113. Skýrsla



Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins.


    Eins og fram kom í skýrslum Íslandsdeildarinnar til Alþingis á síðasta þingi eru á þessu ári liðin 100 ár frá stofnun sambandsins. Þessara tímamóta var minnst á afmælisþingi sem haldið var í Lundúnum 4.–9. september sl., en Bretar voru meðal frumkvöðla að stofnun sambandsins á sínum tíma. Aðrir stofnendur voru þingmenn frá Frakklandi, Ítalíu, Belgíu, Danmörku, Spáni, Ungverjalandi, Líberíu og Bandaríkjunum.
    Aldamótaárið höfðu þingmenn frá níu öðrum ríkjum bæst í hópinn, þar á meðal Norðmenn og Svíar, en finnska þjóðþingið gerðist aðili árið 1906. Nú eru í sambandinu þjóðdeildir skipaðar þingmönnum frá 112 ríkjum. Á þinginu í Lundúnum var þjóðdeild Súdan vikið úr samtökunum, þar sem þingið þar hefur verið leyst upp, en á hinn bóginn var samþykkt aðild þjóðdeildar frá Líbíu.
    Alþingi hóf þátttöku í starfi Alþjóðaþingmannasambandsins árið 1951, en árið áður hafði Jóhann Þ. Jósefsson alþingismaður sótt þing þess í Dyflinni sem áheyrnarfulltrúi. Hafa alþingismenn tekið þátt í starfsemi sambandsins nær óslitið síðan, en nokkuð skortir á að til séu skriflegar heimildir um þátttökuna ár hvert.
    Þá hafa enn ekki verið settar sérstakar starfsreglur fyrir Íslandsdeild sambandsins eins og þó er áskilið í lögum þess. Samhliða skýrslu þessari flytur núverandi stjórn deildarinnar því sérstaka þingsályktunartillögu, þar sem gert er ráð fyrir að ráðin verði bót á þessu og deildinni settar starfsreglur eins og gert hefur verið m.a. um Íslandsdeildir Norðurlandaráðs og Vestnorræna þingmannaráðsins.

Afmælisþingið í Lundúnum.
    Þingið sóttu fulltrúar frá 101 þjóðþingi og var þingið með fjölmennasta móti. Skráðir þingfulltrúar og áheyrnarfulltrúar voru 950 auk fjölda fréttamanna, stjórnarerindreka og annarra gesta.
    Þar sem hér var um sérstakt hátíðarþing að ræða sátu það fleiri fulltrúar Alþingis en venja er. Af hálfu Íslandsdeildarinnar sátu þingið alþingismennirnir Geir H. Haarde, formaður deildarinnar, Geir Gunnarsson, Júlíus Sólnes, Kristín Einarsdóttir og Sighvatur Björgvinsson auk Ólafs Ólafssonar, ritara deildarinnar.
    Sighvatur Björgvinsson og Geir Gunnarsson sátu í ráði sambandsins auk formanns. Einnig sótti Friðrik Ólafsson, skrifstofustjóri Alþingis, fund skrifstofustjóra þjóðþinga innan vébanda Alþjóðaþingmannasambandsins sem haldinn var á sama tíma. Greinargerð Friðriks Ólafssonar um starfsemi samtaka skrifstofustjóra þjóðþinga er fylgiskjal með þessari skýrslu.
    Mikil viðhöfn einkenndi setningarathöfn þingsins sem haldin var í Westminster Hall. Elísabet II Bretadrottning setti þingið með ræðu, en viðstaddir athöfnina voru allir helstu leiðtogar bresku ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðuflokkanna auk mikils fjölda gesta. Var það mál manna að þessi athöfn, sem og undirbúningur allur og skipulag þingsins, hefði verið hinum bresku gestgjöfum til mikils sóma. Margaret Thatcher, forsætisráðherra Breta, ávarpaði þingið sérstaklega.
    Á meðan á þinginu stóð buðu bresku gestgjafarnir þingfulltrúum m.a. til móttöku í British Museum og á tónleika í St. Paul dómkirkjunni auk þess sem borgarstjórn Lundúna bauð til eftirminnilegs kvöldverðar í Guild Hall.
    Þingforseti var kjörinn Bretinn Michael Marshall, en venja er að formaður þjóðdeildarinnar þar sem þingið fer fram gegni því starfi.

Ályktanir og atkvæðagreiðslur.
    Á dagskrá þingsins voru tvö aðalumræðuefni sem ákveðin voru á þingi sambandsins í mars síðastliðnum. Annars vegar hagnýting geimsins í friðsamlegum tilgangi í þágu mannkyns alls og hins vegar fólksfjölgunar- og fæðuvandamálin í heiminum og leit að leiðum til lausnar á skuldavanda þróunarlandanna.
    Á þinginu kom til athyglisverðrar atkvæðagreiðslu um hvert skyldi vera viðbótarumræðuefni þingsins. Fyrir lágu fjórar tillögur um umræðuefni. Í fyrsta lagi tillaga frá vestur-þýsku þjóðdeildinni um að rætt skyldi um atburðina í Kína á síðastliðnu vori þegar friðsamleg mótmæli almennings voru brotin á bak aftur með ofbeldi. Í öðru lagi tillaga frá Spánverjum um málefni Namibíu, væntanlegar kosningar þar og möguleika þjóðþinga á að aðstoða þau stjórnvöld sem við taka eftir kosningar. Í þriðja lagi tillaga frá Tyrkjum um meðferðina á tyrkneska minni hlutanum í Búlgaríu og í fjórða lagi tillaga frá Írökum um framkvæmd vopnahlés milli Írans og Íraks og fangaskipti milli landanna.
    Síðustu tvær tillögurnar voru kallaðar aftur en til atkvæðagreiðslu kom um hinar tvær. Tillaga Vestur-Þjóðverja um að taka fyrir ástandið í Kína hlaut
335 atkvæði að viðhöfðu nafnakalli, 393 voru á móti, en 509 greiddu ekki atkvæði. Íslenska sendinefndin, sem hefur níu atkvæði, studdi tillöguna og sama gerðu flestir aðrir þingmenn frá Vesturlöndum auk ýmissa annarra. Mjög mikla athygli vakti að öll atkvæði pólsku þjóðdeildarinnar, 15 talsins, féllu með tillögunni og að allir ungversku þingmennirnir sátu hjá, en þeir fóru með 13 atkvæði. Að tillögu Vestur-Þjóðverja felldri var tillaga Spánverja um að taka fyrir málefni Namibíu samþykkt samhljóða.
    Að auki var ákveðið á þinginu að nota ákvæði í lögum sambandsins sem heimilar að taka fyrir aukalega eitt sérstaklega aðkallandi málefni. Samþykkti þingið að taka á dagskrá ógn þá sem réttum stjórnvöldum í Kólumbíu stafar af eiturlyfjasölum þar í landi.
    Í þinglok voru samþykktar ítarlegar ályktanir um þessi málefni og náðist um þær allar góð samstaða. Geir H. Haarde flutti ræðu í umræðunum um fólksfjölgunar- og fæðuvandamálið í heiminum, en Kristín Einarsdóttir tók þátt í almennu umræðunum á þinginu. Ræddi hún mest um umhverfismál.

Kosningar í trúnaðarstörf.
    Á þinginu var kjörið til fjögurra ára í tvö sæti af tólf í framkvæmdanefnd sambandsins. Frakkinn Yves Tavernier og Búlgarinn Peter Voutov tóku sæti sem áður voru skipuð Kanadamanni og Sovétmanni en kjörtímabil þeirra var útrunnið.
    Þá var Kínverjinn Fu Hao kjörinn í framkvæmdanefndina í stað landa síns er látist hafði, og nýr þingmaður frá Póllandi, Janusz Onyskiewicz, tók sæti annars Pólverja sem ekki á lengur sæti á pólska þinginu. Munu þeir sitja í nefndinni út kjörtímabil forvera sinna, þ.e. til hausts 1991. Þess má geta að Onyskiewicz situr á pólska þinginu fyrir Samstöðu og hefur þegar getið sér orð innan sambandsins fyrir að eiga ekki síður samleið með vestrænum þingmönnum en fulltrúum frá kommúnistaríkjunum.
    Í Lundúnum var einnig kjörinn nýr formaður í fyrstu nefnd þingsins, hinni svokölluðu pólitísku nefnd. Frambjóðandi vestrænna ríkja, Ítalinn Claudio Vitalone, sem er öldungadeildarþingmaður úr röðum kristilegra demókrata, hlaut kosningu. Í framboði gegn honum var þingmaður frá Júgóslavíu.

Starfsemi ráðsins.
    a. Ráð sambandsins tók að venju afstöðu til fjölmargra mála sem framkvæmdanefndin lagði fyrir það. Ákveðið var m.a. að setja á laggirnar sérstaka milliþinganefnd til fimm ára skipaða níu þingmönnum frá jafnmörgum löndum til að fjalla um umhverfismál. Er nefndinni ætlað að hafa náið samstarf við þá aðila hjá Sameinuðu þjóðunum sem að þessum málum starfa.
    b. Þá var ákveðið að senda þriggja manna sendinefnd á vegum sambandsins til að fylgjast með kosningunum í Namibíu á þessu hausti. Er nefndinni m.a. ætlað að sannreyna að kosningarnar fari löglega fram, að kjörskrár séu ekki falsaðar og að almenningur eigi frjálsan aðgang að öllum upplýsingum er varða kosningarnar. Í nefndina, sem verða mun tvær vikur í Namibíu í tengslum við kosningarnar, voru tilnefndir forseti sambandsins, Senegal-maðurinn Dauda Sow, einn breskur þingmaður og annar frá Pakistan.
    c. Undanfarin missiri hefur sérstök þriggja manna nefnd á vegum ráðsins kynnt sér sérstaklega málefni Miðausturlanda með tilliti til þess með hvaða hætti sambandið gæti beitt sér fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um frið í þessum heimshluta. Framhaldsskýrsla þessarar nefndar lá fyrir ráðinu á fundi þess í Lundúnum og var ákveðið að nefndin héldi áfram störfum.
    Fyrir ráðinu lá tillaga, sem samþykkt var á síðasta þingi, þess efnis að komið yrði á fót vinnuhópi með fulltrúum frá Ísraelsmönnum, Palestínumönnum og fleiri aðilum til að fjalla um ástandið á vesturbakka Jórdanar og á Gaza-svæðinu. Einnig lá fyrir samþykkt frá síðasta þingi um að send yrði nefnd á þessi svæði til að afla upplýsinga um ástand mála. Ísraelska sendinefndin neitaði sem fyrr allri aðild að vinnuhópnum og upplýsti að stjórnvöld í Ísrael mundu ekki veita nefnd frá sambandinu, sem kæmi þessara erinda, leyfi til ferða um land sitt eða aðra fyrirgreiðslu. Vegna þessarar afstöðu taldi ráðið ljóst að það gæti ekki hrundið í framkvæmd ákvörðunum síðasta þings um þessi efni, en fól nefndinni um málefni Miðausturlanda framhald málsins.
    d. Ráðinu var að venju gerð grein fyrir vinnu á vegum sambandsins að mannréttindamálum þingmanna. Upplýst var að fyrir atbeina fastanefndar sambandsins um mannréttindamál þingmanna hefði sjö fyrrverandi þingmönnum í Malasíu og einum í Indónesíu, sem setið hefðu í haldi án dóms og laga, verið sleppt. Ályktað var um mál fjórtán annarra þingmanna og fyrrverandi þingmanna sem talið er að hafi verið sviptir mannréttindum í Chile, Kólumbíu, Gíneu-Bissá, Hondúras, Súdan og Tyrklandi. Eftir að þinginu lauk hafa borist fregnir af því að tveir fyrrverandi þingmenn í Gíneu-Bissá hafi verið látnir lausir úr haldi.
    e .Að tillögu Ástralíumanna samþykkti ráðið ályktun þar sem því var beint til einstakra þjóðþinga að setja á laggirnar nefndir þingmanna um mannréttindamál sem beittu sér m.a. fyrir því að samviskuföngum yrði sleppt úr haldi og fyrir réttaröryggi pólitískra fanga í heiminum. Tillaga Tékkóslóvakíu
um að fresta afgreiðslu þessarar ályktunar var felld með 85 atkvæðum gegn 53 en 13 sátu hjá. Í ráðinu hefur hver sendinefnd tvö atkvæði og fóru Geir H. Haarde og Geir Gunnarsson með atkvæði Íslands í þessari atkvæðagreiðslu og greiddu báðir atkvæði gegn tillögu Tékka og síðan með tillögu Ástralíumanna.
    f. Á vegum ráðsins er nú unnið að endurskoðun á lögum Alþjóðaþingmannasambandsins og er gert ráð fyrir að henni verði lokið fyrir næsta þing þess.

Önnur fundarhöld á þinginu.
    Samkvæmt venju var á þinginu haldinn fundur fulltrúa þeirra ríkja sem aðild eiga að Helsinki-sáttmálanum og ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu, hinna svokölluðu RÖSE-landa. Þingmenn frá þessum löndum hafa hist reglulega undanfarin ár innan vébanda Alþjóðaþingmannasambandsins og rætt framgang mála í RÖSE-viðræðunum.
    Slík ráðstefna var síðast haldin í Bonn vorið 1986 og var þá afráðið að næsta ráðstefna yrði í Búkarest í maí 1989. Vegna ástandsins í Rúmeníu hafa vestræn ríki hins vegar lagst gegn því að hún verði haldin þar í landi og í staðinn mælt með Genf sem fundarstað. Ekki náðist samkomulag um þetta á þinginu í Lundúnum frekar en áður og meðan ekki næst allsherjarsamkomulag um fundarstað og fundartíma verður ekkert af þessari ráðstefnu.
    Áður en þingið hófst var að venju haldinn sérstakur samráðsfundur kvenna í hópi þingfulltrúa og sótti Kristín Einarsdóttir þann fund. Á þinginu var einnig haldinn sérstakur óformlegur fundur um málefni aldraðra eins og verið hefur á nokkrum undanförnum þingum. Þá var í þetta sinn enn fremur haldinn óformlegur fundur um málefni fatlaðra.

Samstarf þingmanna frá Vesturlöndum.
    Eins og endranær var á þinginu náið samstarf milli þingmanna frá vestrænum ríkjum innan hins svokallaða Tólf plús hóps. Í hópnum bar hins vegar mjög á deilum milli Kípurmanna og Tyrkja vegna ástandsins á Kípur, en næsta þing sambandsins verður í Nikósíu að vori. Hafa Tyrkir lýst því yfir að þeir sjái sér ekki fært að koma til þings þar. Var ákveðið gegn vilja Tyrkja að á vegum Tólf hópsins skyldi taka til starfa nefnd þriggja þingmanna til að kynna sér sérstaklega málefni Kípur. Hins vegar var að ósk Tyrkja samþykkt í hópnum yfirlýsing sem dreift var á þinginu um málefni tyrkneska minni hlutans í Búlgaríu og aðgerðir þarlendra stjórnvalda gegn minnihlutahópum.
    Portúgal hefur verið í forsæti í Tólf plús hópnum undanfarið ár en Svíar taka nú við og fara með formennskuna næsta árið.
    Þingmenn frá Norðurlöndum héldu sérstakan samráðsfund á þinginu en formenn Norðurlandadeildanna hittust að venju fyrir þingið og réðu ráðum sínum. Sá fundur var haldinn í Ósló 25. ágúst. Norðmenn láta nú af formennsku í norræna hópnum og við taka Finnar, en að ári kemur röðin að íslensku deildinni að stýra þessu samstarfi.

Starfsemi Alþjóðaþingmannasambandsins á næstunni og þátttaka Íslandsdeildarinnar.
    Í nóvember næstkomandi verður í Genf ráðstefna um þátttöku kvenna í stjórnmálum sem áður var ráðgert að yrði á Spáni. Skipt var um fundarstað vegna kosninga á Spáni. Ekki hefur verið gert ráð fyrir þátttöku af hálfu Íslandsdeildarinnar í þessari ráðstefnu.
    Næsta reglulega þing sambandsins verður í Nikósíu á Kípur í byrjun apríl næstkomandi. Óráðið er hvar haustþingið 1990 verður haldið þar sem ekki verður af þinghaldi í Malasíu eins og fyrirhugað var um tíma.
    Í maí að vori halda samtökin ráðstefnu um afvopnunarmál í Bonn og gert er ráð fyrir ráðstefnu gegn kynþáttaaðskilnaðarstefnunni í Harare í Simbabve í lok árs 1990. Þá hafa Sovétmenn boðað að þeir muni bjóða til sérstakrar ráðstefnu þingmanna um afvopnunarmál á næsta ári og kom sovéski sendiherrann í Reykjavík því á framfæri við fulltrúa deildarinnar í byrjun október.
    Þátttaka af hálfu Íslandsdeildarinnar í starfi sambandsins á næsta ári ræðst að sjálfsögðu algerlega af fjárveitingum Alþingis til starfseminnar. Fjárveiting þessa árs var 2.585 þús. kr., en tilmæli bárust frá forsetum Alþingis um að reynt yrði að lækka útgjöld deildarinnar um sem næst 150 þús. kr. Allt bendir til þess að það muni takast og að útgjöldin verði innan þessa ramma.
    Í upphafi árs 1991 verður haldin svæðisbundin ráðstefna í Bangkok um efnahagssamvinnu Asíulanda og vonast er til að reglulegt þing sambandsins verði í Brasilíu vorið 1991. Þá er ákveðið að haustþingið 1992 verði í Madrid.
    Skrifstofa Alþjóðaþingmannasambandsins hefur grennslast fyrir um það hvort til greina geti komið að þing á vegum sambandsins verði haldið hér á landi. Stjórn Íslandsdeildarinnar er þeirrar skoðunar að stefna beri að því að bjóða til þings hérlendis einhvern tíma á næstu árum, en ljóst er að slíkt er bæði kostnaðarsamt og þarf langan undirbúning.

Alþingi, 1. nóvember 1989.



Geir H. Haarde.


Geir Gunnarsson.


Kristín Einarsdóttir.


Sighvatur Björgvinsson.


Ólafur Ólafsson,


ritari.




Fylgiskjal.


Friðrik Ólafsson,
skrifstofustjóri Alþingis:



SAMTÖK SKRIFSTOFUSTJÓRA ÞJÓÐÞINGA (ASGP) 50 ÁRA



    Þegar þingmenn koma saman á alþjóðaráðstefnum til að ræða heimsmálin og takast á við vandamál líðandi stundar nota embættismenn þjóðþinganna gjarnan tækifærið til að hittast og skiptast á upplýsingum um allt hvaðeina er lýtur að skipulagi þinganna og starfsháttum. Þannig er þessu farið á fundum Alþjóðaþingmannasambandsins (Inter Parliamentary Union, IPU) sem haldnir eru tvisvar á ári, á vorin og haustin. Þá hittast um leið skrifstofustjórar þjóðþinganna til að miðla hver öðrum af reynslu sinni og þekkingu. Stjórnkerfi ríkja eru að vísu af margvíslegum og ólíkum toga spunnin en starfshættir og skipulag þjóðþinganna leiða engu að síður í ljós ýmsar áþekkar þarfir, t.d. að því er varðar fundarsköp, starfslið og aðstoðarfólk, bókasöfn, skjalavörslu, útgáfu þingskjala o.s.frv. Það eru þessi viðfangsefni sem Alþjóðasamtök skrifstofustjóra þjóðþinga (Association of Secretaries General of Parliaments, ASGP) láta sig varða á fundum sínum innan vébanda IPU.
    Að stofnun samtakanna í Ósló hinn 16. ágúst 1939 stóðu skrifstofustjórar þjóðþinganna í Belgíu, Danmörku, Eistlandi, Finnlandi, Frakklandi, Bretlandi, Japan, Hollandi, Noregi, Póllandi, Svíþjóð, Tyrklandi, og Bandaríkjum N-Ameríku. Núna, fimmtíu árum síðar, hefur aðildarlöndunum fjölgað í 89 og auk þess eiga þar sæti fulltrúar frá þingum fimm alþjóðlegra stofnana.
    Þar sem þjóðþing sumra landa starfa í tveimur deildum getur verið um tvöfalda þátttöku að ræða, þ.e. skrifstofustjóri hvorrar deildar fyrir sig á aðild að ASGP og rétt til að taka þátt í starfsemi samtakanna. Samkvæmt þessu eiga nú aðild að ASGP samtals 116 fulltrúar.
    Samkvæmt reglum ASGP eiga þjóðþingin rétt á að senda tvo æðstu embættismennina á fundi samtakanna, venjulega skrifstofustjóra og varaskrifstofustjóra þingsins. Auk þess eiga rétt til setu á fundunum 40 heiðursfélagar sem hlotnast hefur sú viðurkenning fyrir vel unnin störf í þágu samtakanna. Alls gætu því þátttakendur á fundi ASGP orðið 210 talsins.

Tilgangur og hlutverk samtaka skrifstofustjóra þjóðþinga.
    Í VII. kafla laga Alþjóðaþingmannasambandsins segir svo, m.a. um Samtök skrifstofustjóra þjóðþinga (26. gr.):
    „Samtök skrifstofustjóra þjóðþinga eru ráðgefandi deild innan Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Samtökin vinna að sambærilegum viðfangsefnum og þær stofnanir Alþjóðaþingmannasambandsins sem rannsaka starfsemi þjóðþinga. Undirbúningur og vinna að verkefnum skal fara fram með samráði og í náinni samvinnu þessara aðila.
    Samtök skrifstofustjóra hafa sjálfstæða stjórn, en fjárhagsáætlun þeirra skal vera hluti af fjárhagsáætlun Alþjóðaþingmannasambandsins og reglur, sem þau setja sér, skulu samþykktar af ráði Alþjóðaþingmannasambandsins.“
    Í lögum Samtaka skrifstofustjóra þjóðþinga, sem að stofni til eru frá 1971, segir m.a. svo um tilgang og hlutverk samtakanna:
    að stuðla að persónulegum kynnum embættismanna þinganna,
    að rannsaka lög og reglur er varða starfshætti þinga og fundarsköp,
    að leggja fram tillögur sem stuðlað gætu að bættum vinnubrögðum þjóðþinga,
    að tryggja góða samvinnu milli skrifstofa þinganna. (1. gr. samþykkta ASGP).
    Sérhver embættismaður, sem er félagi í samtökunum, skal láta í té upplýsingar um þingið sem hann starfar við þegar þess er farið á leit við hann af öðrum félaga í samtökunum, t.d. vegna fræðilegra rannsóknarverkefna á vegum ASGP. Hann skal láta í té upplýsingar um lög, fundarsköp, starfsreglur og venjur, enn fremur um skipulagsmál þingsins og skrifstofu þess. (2. gr. samþykkta ASGP).
    Fundir ASGP eru yfirleitt vel sóttir en að sjálfsögðu ber það stundum við að annir heima fyrir komi í veg fyrir þátttöku. Þegar samtökin halda fundi sína eru þátttakendur venjulega 60–70. Fyrsta málið á dagskrá er að öllu jöfnu kynning á skipulagi og starfsháttum þingsins í því landi þar sem fundurinn fer fram en síðan taka við venjubundnir liðir samkvæmt áður samþykktri dagskrá.

Starfsemi samtakanna.
    Áþreifanlegasti afraksturinn af starfsemi samtakanna er fólginn í útgáfu fræðilegra greinargerð eða skýrslna (rapport) um skipulagsmál og starfshætti þjóðþinga. Frá því um 1960 hafa verið gefnar út 56 skýrslur af þessi tagi sem hafa að geyma gífurlegan fróðleik fyrir þá sem hafa með höndum rekstur og stjórnunarstörf í þjóðþingum (sjá yfirlit í viðauka II). Af handahófi mætti nefna skýrslur sem samdar hafa verið um tilhögun atkvæðagreiðslna í þjóðþingum, um friðhelgi og réttindi þingmanna, um samanburð á aðferðum við lagasetningu og um fjárhagsleg tengsl þingmanna.
    Undirbúningur og vinna við slíka skýrslugerð tekur að jafnaði um tvö ár. Sá sem á frumkvæðið að slíku verkefni (rapporteur) er beðinn um að gera tillögu að spurningalista sem sendur er öllum skrifstofustjórum eftir að hann hefur verið ræddur og samþykktur á fundi samtakanna. Á grundvelli svaranna sem berast útbýr „verkefnisstjórinn“ svo frumdrög að skýrslu sem lögð eru fram á næsta fundi. Vegna ólíkra stjórnarhátta getur það borið við að viðfangsefnin eigi ekki alltaf erindi til allra þjóðþinga í samtökunum en venjulega koma þó svör frá a.m.k. helmingi þeirra. Á fundinum eru frumdrög skýrslunnar svo rædd í heild og afstaða tekin til athugasemda sem fram koma. Á næsta fundi samtakanna er skýrslan svo rædd lið fyrir lið áður en hún hlýtur endanlegt samþykki.
    Að því loknu er skýrslan birt í heild sinni í málgagni samtakanna, „Constitutional and Parliamentary Information“. Þessar skýrslur eru árangur viðamikilla samanburðarrannsókna á ýmsum þáttum í starfsemi þinga um víða veröld og ekki rýrir það gildi þeirra að efniviðurinn í þær er oft lagður til af færustu sérfræðingum heims á þessu sviði.
    Skýrslugerð sem þessi krefst bæði mikils tíma og fyrirhafnar. Af þeirri ástæðu er stundum hafður sá háttur á, þegar viðfangsefnið þykir ekki veigamikið, að láta nægja umræðu um það á einum fundi (topical discussion). Á dagskrá hvers fundar er að jafnaði að finna þrjú til fjögur mál af þessu tagi. Venjulega er aðdragandinn sá að tillaga hefur komið fram um ákveðið viðfangsefni á fundinum næst á undan og ákveðið að láta eina umræðu um það nægja. Sá sem átti uppástunguna semur stuttorða kynningu á viðfangsefninu sem hann sendir félögum sínum í samtökunum, svo að þeir geti komið undirbúnir til umræðunnar. Af viðfangsefnum, sem nýlega hafa verið til umræðu, má t.d. nefna takmörkun á ræðutíma, tilhögun við kjör þingforseta, aðgang almennings að fundum þingnefnda o.fl. Útdráttur úr slíkum umræðunum er síðan birtur í málgagni samtakanna sem áður er nefnt. Stundum ber það þó við að umræðurnar leiða í ljós svo mikinn áhuga á viðfangsefninu að ákveðið er að vanda betur til verksins og láta gera skýrslu um málið.
    Hér hefur verið lýst tveimur meginþáttunum í starfsemi samtakanna. Eins og áður segir hefjast fundirnir sjálfir jafnan á því að skrifstofustjóri þingsins í því landi þar sem fundurinn er haldinn gefur greinargóða lýsingu á skipulagi þingsins og starfsháttum. Í framhaldi af því er venjulega farið í heimsókn í þinghúsið þar sem nánari upplýsingar eru veittar og fyrirspurnum svarað. Þar sem fundir samtakanna eru haldnir tvisvar á ári og þeim dreift á aðildarlöndin gefst félögunum kjörið tækifæri til að öðlast innsýn í starfsemi fjölmargra
þjóðþinga. Á tveimur síðastliðnum árum hefur þeim þannig gefist kostur á að heimsækja og fræðast um þingin í Guatemala, Thailandi, Búlgaríu og Ungverjalandi, allt þjóðþing ólíkrar gerðar og uppruna. Og nú í vor, á 50 ára afmælisfundi samtakanna í London, fengu menn að kynnast innviðum þingsins í Westminster og fór vel á því vegna þess að það hefur verið nefnt móðir allra þjóðþinga heims, þótt við á Alþingi kunnum að hafa aðrar skoðanir á þeirri nafngift.
    Hver er svo gagnsemin af starfsemi samtakanna? Hún er margvísleg. Það gefur t.d. auga leið að fyrir nýstofnuð þing eða þing þjóða, sem nýlega hafa fengið sjálfstæði, er þátttaka í starfsemi samtakanna og þeirri faglegu umfjöllun, sem þar á sér stað, mjög gagnleg. Þau eru að reyna að koma skipulagi á eigin starfsemi og sú innsýn í reynslu og þekkingu annarra þjóðþinga, sem þau verða aðnjótandi, hlýtur að auðvelda þeim verkefnið.
    Fyrir gamalgróin þjóðþing, sem telja orðið tímabært að endurskoða fundarsköp sín eða taka upp nýja tilhögun í rekstri, er það óumdeilanlegt hagræði að geta kynnt sér hvernig önnur þjóðþing hafa tekið á slíkum málum og hver reynsla þeirra hefur orðið. En fyrst og fremst eru samtökin vettvangur fyrir æðstu embættismenn þinganna þar sem þeir geta rætt óformlega margvísleg áhugamál sín og leitað álits félaga sinna á vandamálum sem á vegi þeirra hafa orðið. Stundum ber það við að skrifstofustjóri, sem þarf að fá úrlausn á ákveðnu vandamáli, sendir félögum sínum í samtökunum spurningalista með þremur til fjórum spurningum til að fá upplýsingar um það hvernig tekið er á tilteknum atriðum hjá öðrum þjóðþingum. En fljótlegasta leiðin er að sjálfsögðu sú, ef um tiltölulega einfalt atriði er að tefla, að skrifstofustjórinn hringir í nokkra félaga sína til að afla sér upplýsinga um málið og er þessi hátturinn tíðast hafður á.
    Eins og hjá IPU fara umræður fram á ensku og frönsku, eða eru þýddar á þau mál, og sama máli gegnir um öll skjöl sem út eru gefin á vegum samtakanna.

Stjórn samtakanna.
    Stjórn samtakanna skipa forseti, tveir varaforsetar, og sex fulltrúar úr framkvæmdanefnd samtakanna.
    Stjórnarmenn eru nú kosnir til þriggja ára í senn, eða sem svarar til sex funda. Ekki verða þeir endurkjörnir í sama embætti þegar kjörtímabilinu lýkur. Í framkvæmdanefndina eru að jafnaði valdir þeir sem mæta vel á fundi samtakanna og taka virkan þátt í starfsemi þeirra. Núverandi forseti samtakanna er Christodoulos Hadjioannau, skrifstofustjóri þingsins í Nikosíu á Kípur, sem kjörinn var á fundi samtakanna í London nú í september.
    Aðalskrifstofa samtakanna er í Genf og hafa embættismenn frá þingunum í Englandi og Frakklandi yfirumsjón með starfsemi hennar. Þeir sjá jafnframt um að undirbúa alla fundi á vegum samtakanna.

Málgagn samtakanna.
    Málgagn samtakanna, „Constitutional and Parliamentary Information“, kom út ársfjórðungslega fram til 1989, en mun framvegis koma út tvisvar á ári. Í því eru birtar allar skýrslur, sem gerðar eru á vegum samtakanna, útdrættir úr umræðum (topical discussions) og sitthvað fleira sem varðar starfsemi samtakanna. Þar eru jafnframt birtar stjórnarskrár allra ríkja heims. Þegar ný stjórnarskrá er sett eða breytingar gerðar á gildandi stjórnarskrá er venjan sú að skrifstofustjóri viðkomandi þings sjái til þess að hin nýja stjórnarskrá eða stjórnarskrárbreytingar berist málgagni samtakanna til birtingar. Málgagninu er dreift til allra þinga í heiminum auk þess sem fjölmargir háskólar og bókasöfn eru áskrifendur að því. Ákveðið hefur verið að gera útgáfu blaðsins vandaðri á komandi árum.

Afmælisfundurinn í London 1989.
    Mjög var vandað til fundarins í London vegna 100 ára afmælis Alþjóðaþingmannasambandsins og margt gert til hátíðabrigða af því tilefni. Ráðstefnan var sett í Westminster Hall að viðstöddum bresku konungshjónunum og öðru fyrirfólki, þar á meðal Margaret Thatcher forsætisráðherra Breta sem síðar ávarpaði fundinn. Öll var skipulagning og framkvæmd fundarins Englendingum til mikils sóma, enda greinilegt að þeir spöruðu ekkert til að
gera hana sem eftirminnilegasta og glæsilegasta. Einn þátturinn í ráðstefnuhaldinu var fimmtíu ára afmælisfundur Samtaka skrifstofustjóra þjóðþinga og verður hér á eftir lýst því markverðasta sem þar gerðist:

Fundur Samtaka skrifstofustjóra þjóðþinga í London 1989.
    Fundurinn var vel sóttur eins og vænta mátti og voru þátttakendur alls 104 frá 63 þjóðþingum. Fyrsti liður á dagskrá var að venju kynning á skipulagi og starfsháttum breska þingsins og önnuðust hana skrifstofustjóri lávarðadeildarinnar (the Clerk of the Parliaments), Sir John Sainty, og skrifstofustjóri neðri deildarinnar (the Clerk of the House of Commons), Clifford Boulton. Að kynningu lokinni var haldið til Westminster þar sem boðið var upp á skoðunarferð um þinghúsið og var afar lærdómsríkt að kynnast
innviðum þessarar fornfrægu stofnunar. Nánast hvert fótmál þar býr yfir sögu merkilegra atburða og aldagamalla hefða. Þessari eftirminnilegu heimsókn í þinghúsið lauk með veglegri móttöku í boði forseta neðri deildarinnar, Weatherill.



Viðauki I.


Helstu mál á dagskrá fundarins í London.



1.     Umræða um fjárhagsáætlanir þjóðþinga. Frummælandi Samuel Jacobsson, skrifstofustjóri ísraelska þingsins (Knesset). (Topical discussion on the Parliamentary Budget).
    Eitt áhugaverðasta umræðuefnið á fundinum í ljósi framkvæmdarinnar hér á landi.
    Forsaga málsins var sú að forseti þingsins í Ísrael hafði orðið fyrir þeirri „óvenjulegu reynslu“ á síðastliðnu ári að fjárlagadeild fjármálaráðuneytisins hafði lagt fyrir hann að lækka niðurstöðutölur fjárhagsáætlunar þingsins í samræmi við sparnaðaráform ríkisstjórnarinnar. Þar sem þetta hafði ekki áður átt sér stað í Ísrael áður vildi Jacobson gjarnan fá að vita hvernig tekið væri á þessum málum hjá öðrum þjóðþingum og hvort slík atvik ættu sér yfirleitt stað.
    Í Ísrael er ferill fjárhagsáætlunarinnar sá að forseti þingsins leggur áætlunardrög fyrir „hússtjórnarnefndina“ (House management committee) sem samþykkir áætlunina í endanlegri gerð og sendir hana fjármálaráðuneytinu til formlegrar meðferðar. Þannig hagaði til að ísraelska ríkisstjórnin ákvað að framkvæma flatan niðurskurð á útgjöldum ríkisins. Þetta leiddi til þrýstings á opinberar stofnanir að fækka í starfsliði sínu. Hjá þinginu vakti þetta spurningu um viðbrögð. Átti þingforsetinn að virða niðurskurðinn að vettugi og sjá til þess að þingið hefði á að skipa nægum mannafla? Gat embættismaður hins opinbera lagt fyrir þingið að hlíta slíkum fyrirmælum?
    Lög og stjórnskipunarhefðir virðast ekki veita neinar vísbendingar í þessum efnum, en ráðherrarnir hljóta að eiga undir þingið að sækja fremur en þingið undir þá. Á forseti þingsins, þegar hann undirbýr fjárhagsáætlunina, að hlíta niðurskurði ríkisstjórnarinnar?
    Framvindan varð þessi:
    Eftir að fjárlagafrumvarpið var lagt fram var fjárhagsáætlun Knessets vísað til meðferðar hjá sérnefnd sem skipuð var fimm mönnum úr „hússtjórnarnefndinni“ og jafnmörgum úr fjárveitinganefndinni. Lyktirnar urðu þær að Knesset fékk þá fjárveitingu sem upprunalega var gert ráð fyrir.
    Í umræðunum sem spunnust af framsöguræðu Jacobsons virtist það vera samdóma niðurstaða að óeðlilegt væri að framkvæmdarvaldið hefði afskipti af fjárhagsáætlun þjóðþingsins með þessum hætti. Það gæti þó skipt máli í þessu sambandi hvaða viðfangsefni heyrðu undir fjárhagsáætlunina. Nokkur dæmi:
     Í Danmörku er það „hússtjórnarnefndin“ (husholdningsudvalget) sem undirbýr og gengur frá fjárhagsáætlun þingsins áður en hún er send fjármálaráðuneytinu til formlegrar meðferðar. Ekki er hróflað við áætluninni frá því að „hússtjórnarnefndin“ hefur samþykkt hana og þar til hún er orðin að lögum, ekki einu sinni í fjárveitinganefnd þingsins.
     Í Kanada hreyfir ríkisstjórnin yfirleitt engum athugasemdum við fjárhagsáætlun þingsins. Slík afskipti gætu verið túlkuð sem óvirðing við þingið.
     Í Frakklandi gæti það orðið meiri háttar hneyksli ef ríkisstjórnin færi að skipta sér af fjárhagsáætlun þingsins, svo fremi sem hún er byggð á raunhæfum og traustum forsendum. Franski skrifstofustjórinn taldi þó að samsetning fjárhagsáætlunarinnar gæti skipt máli í þessu sambandi þar sem viss viðfangsefni gætu eðli máls samkvæmt gefið tilefni til íhlutunar ríkisstjórnarinnar.
     Í Ísrael eru helstu viðfangsefnin (útgjaldaliðirnir) í fjárhagsáætluninni þessi samkvæmt upplýsingum Jacobsons:
    Laun og starfskostnaður þingmanna.
    Rekstrarkostnaður og viðhald fasteigna.
    Útgáfa og prentun.
    Öryggisvarsla.
    Laun starfsfólks.
    Í Englandi er svipaða sögu að segja hvað varðar samsetningu fjárhagsáætlunarinnar. Sum viðfangsefni eru þess eðlis að þau fela í sér óbeina íhlutun ríkisstjórnarinnar. Þannig er þessu t.d. farið með áætlanir um launakjör starfsmanna þingsins sem taka mið af stefnu ríkisstjórnarinnar í kjarasamningum við opinbera starfsmenn (þetta á einnig við hér á landi). Þingið ákvarðar laun þingmanna, en þau eru reyndar miðuð við ákveðinn launaflokk embættismanna hjá ríkinu og breytast sjálfkrafa ef þar verða
breytingar á. Um laun þingmanna sem embættum gegna fyrir þingið er tekin sérstök ákvörðun á þingfundi með atkvæðagreiðslu. Segja má því að ákvörðunarvald um laun þingmanna sé algerlega í höndum þingsins sjálfs.
    Rekstur og viðhald þingbygginga og annars húsakosts þingsins er ekki liður í fjárhagsáætlun þess. Það verkefni heyrir undir framkvæmdarvaldið. Hins vegar heyrir útgáfu- og prentkostnaður undir þingið. Það teldist til mikilla tíðinda ef breska ríkisstjórnin færi að skipta sér af fjárhagsáætlun þingsins.
    Það kom fram í þessum umræðum að hlutur þjóðþinga í ríkisútgjöldum um heim allan hefur verið stöðugt og mjög lágt hlutfall, eða um og yfir 1%.

2.      Drög að skýrslu um upplýsingavæðingu þjóðþinga. Samin af Helge Hjortdal, skrifstofustjóra danska þingsins (Folketinget). (Draft Report on Information Technology in Parliaments).
    Í framsögu Helge Hjortdals og umræðum um skýrslu hans kom fram margt athyglisvert og verður hér drepið á það helsta:
    Af skýrslu, sem kom út á vegum IPU 1984, virðist mega ráða að þá hafi 21 þjóðþing verið búið að taka tölvutæknina í sína þjónustu í meiri eða minna mæli, en 18 þjóðþing voru með slíkar ráðagerðir á prjónunum.
a.    Svo er að sjá sem tölvuvæðing þjóðþinga hafi almennt hafist rétt fyrir og um 1980 en tiltölulega fá þing bættust í hópinn á fyrri hluta þessa áratugar.
b.    Í þjóðþingum, sem starfa í tveimur deildum, hefur gætt tilhneigingar til að starfrækja tvö aðskilin tölvukerfi, eitt í hvorri deild. Þó eru kerfin hjá mörgum þingum starfrækt sem ein heild.
c.    Það færist mjög í vöxt að setja upp nettengd kerfi og leggja þau af sem byggjast á einmenningstölvum.
d.    Flest þjóðþing nota tölvur fyrst og fremst til ritvinnslu og leitar í eigin gagnabönkum eða öðrum. Einnig eru þær mikið notaðar til flutnings texta í prentsmiðju og fyrir boðsendingar innan húss (electronic mail).
e.    Flest þjóðþing virðast hafa einhvern aðgang að gagnabönkum ríkisstofnana, en á hinn bóginn virðast ríkisstofnanir hafa lítinn aðgang að gagnabönkum þjóðþinga. Þetta mun stafa af því að fá þjóðþing hafa enn sem komið er tekið í notkun eigin upplýsingakerfi. Í nokkrum löndum hefur almenningur aðgang að margháttuðum upplýsingum um starfsemi þinganna í tölvukerfum þeirra og eru notaðir til þess „video“-skjáir.
f.    Í mörgum löndum virðist gæta tilhneigingar í þá átt að ritarar eða aðstoðarmenn, fremur en þingmennirnir sjálfir, færi sér tölvutæknina í nyt. Í nokkrum löndum nota þingmenn þó tölvurnar mikið og líklegt má telja að notkun þingmanna á tölvum aukist þegar tímar líða fram. Það er mjög misjafnt eftir löndum hversu margir þingmenn hafa tölvur til ráðstöfunar. Raunar gegnir sama máli um starfsfólk þjóðþinga.
g.    Yfirleitt er þannig staðið að málum þegar þjóðþing ákveða að taka tölvutæknina í sína þjónustu að leitað er til ráðgjafarstofnunar um aðstoð við undirbúninginn.
h.    Tölvuvæðingin hefur yfirleitt í för með sér breytingar á skipulagi og starfsháttum þjóðþinga. Oftast hefur þörfin á slíkum breytingum verið séð fyrir þegar unnið var að undirbúningi tölvuvæðingarinnar þannig að sjaldnast hefur þurft að sinna því verkefni sérstaklega síðar. Reynslan hefur sýnt að á fyrstu árum tölvuvæðingarinnar er sjaldnast um fækkun í starfsliði að ræða, e.t.v. fremur hið gagnstæða.
i.    Það er alveg ljóst að tölvuvæðingin felur í sér kröfur um meiri og betri þjónustu og þegar er nefnt að hún hefur yfirleitt ekki í för með sér fækkun í starfsliði. Ekki er heldur neinn sparnaður merkjanlegur vegna þess að kaup og viðhald tækjabúnaðar, auk kennslu fyrir notendurna, gleypir yfirleitt þann sparnað sem ætla má að endurskipulagningin hafi haft í för með sér.
j.    Mörg þjóðþing hafa haft nána samvinnu í þessum efnum og miðlað hvert öðru af reynslu sinni og þekkingu. T.d. má nefna að Norðurlandaþingin fylgjast vel með þróun tölvumála hvert hjá öðru og koma árlega saman á fundum af því tilefni.
    Í umræðunum, sem fylgdu í kjölfar framsögunnar, komu fram ýmsar fróðlegar upplýsingar frá þjóðþingum sem lengst eru komin í tölvuvæðingunni:
     Bretland. Mikil bjartsýni var ríkjandi við upphaf tölvuvæðingarinnar og líklega farið of geyst í sakirnar. Smám saman hafa menn farið að líta á málin af meira raunsæi vegna hins mikla kostnaðar. Nú er sérhver ákvörðun tekin eftir vandlegan undirbúning og nákvæma könnum til að tryggja sem best að ekkert fari úrskeiðis hvorki í fjárhagslegu né tæknilegu tilliti.
     Bandaríkin.
a.    Tölvuvæðing hófst í bandaríska þinginu um 1960.
b.    Tölvur hafa ekki leyst starfsfólk af hólmi. Þvert á móti hefur því fremur fjölgað.
c.    Mestallt starfslið þingsins er ungt að árum og þess vegna fljótt að aðlaga sig nýrri tækni.
d.    Atkvæðagreiðslukerfi í þinginu eru sjálfvirk.
e.    Í gagnagrunni þingsins er að finna allar upplýsingar um þingmál og dagskrá hvers dags.
f.    Sérhverjum þingmanni er það í sjálfsvald sett með hverjum hætti hann kýs að nýta tölvutæknina á skrifstofu sinni.
g.    Það eru einkum nýir þingmenn sem hafa áhuga á að nýta sér þá þjónustu og möguleika sem tölvutæknin býður upp á. Á því er þó viss annmarki að þingmenn hafa mjög mismunandi hugmyndir um tegundir og búnað og þetta gerir það að verkum að erfitt getur reynst fyrir stjórn þingsins að fá heildarsýn yfir þróunina og gang mála.
h.    Reynslan sýnir að það er mjög brýnt að starfslið þings, sem hyggst taka tölvutæknina í sína þjónustu, sé vel undir það búið að nýta hina nýju tækni. Hafi þetta verið vanrækt má búast við að það veki ugg og kvíða í hópi starfsfólksins hvað við taki.
i.     Einn ókostur tölvuvæðingarinnar er sá að geymsla gagna og skráa til langs tíma er ýmsum annmörkum háð og getur haft í för með sér umtalsverðan kostnað.

————-



    Ýmis fleiri mál voru á dagskrá fundarins sem fróðlegt væri að rekja nánar en hér skal látið staðar numið. Stutt yfirlit yfir þessi mál fer hér á eftir:

3.     Umræða um beinar sjónvarpsútsendingar frá þjóðþingum. Frummælandi Herman Nys, skrifstofustjóri öldungadeildar belgíska þingsins. (Topical discussion on the televising of Parliament.)
4.     Umræða um ný þinghús. Frummælandi Harry Evans, skrifstofustjóri öldungadeildar ástralska þingsins. (Topical discussion on parliamentary buildings.)
5.     Frumdrög að spurningalista um mörkin milli löggjafarvaldsins og dómstóla og árekstra sem þar geta átt sér stað. Saminn af Doudou Ndiaye, skrifstofustjóra þingsins í Senegal. (Draft questionnaire on areas of overlap between parliaments and the courts.)
6.     Seinni drög að skýrslu um þarfir þjóðþinga í löndum sem nýlega hafa öðlast sjálfstæði. Samin af Pedro Gabriel M. Duarte, skrifstofustjóra þingsins á Grænhöfðaeyjum. (Second draft report on the parliamentary needs of newly independant countries.)



Viðauki II.


Nokkrir fróðleiksmolar og tölfræðilegar


upplýsingar um breska þingið.



    Í neðri deildinni (House of Commons) eiga nú sæti 650 þingmenn sem allir eru kosnir í einmenningskjördæmum. Í hverju kjördæmi eru kjósendur u.þ.b. 65.000 talsins. Í þeim þrettán kosningum, sem fram hafa farið síðan 1945, hefur ávallt annar hvor stærstu flokkanna fengið meiri hluta þingsæta, utan einu sinni. Eftir hverjar kosningar taka að jafnaði 100–120 nýir þingmenn sæti. Konur, sem nú eiga sæti í neðri málstofunni, eru 42 talsins eða tæplega 6,5%.
    Þeir sem rétt eiga til setu í lávarðadeildinni (House of Lords) eru nú alls 1185. Í deildinni eiga 784 arfborinn rétt til setu en 353 hafa verið aðlaðir og öðlast þannig rétt til að taka sæti í lávarðadeildinni. Afkomendur þeirra síðarnefndu erfa ekki réttinn. Auk þess eiga þar sæti 26 biskupar og 22 dómarar, en lávarðadeildin hefur það sérstaka stjórnskipulega hlutverk, auk löggjafarstarfa, að vera æðsti dómstóll í Bretlandi.
    Fundarsókn í lávarðadeildinni er ákaflega misjöfn eins og gefur að skilja. Að meðaltali sóttu fundi í deildinni 1987–1988 tæpur þriðjungur þeirra sem þar eiga rétt til setu.
    Íhaldsflokkurinn er í miklum meiri hluta í lávarðadeildinni, en hlutur annarra stjórnmálaflokka er þó sífellt að aukast. Þar eiga líka sæti fjölmargir sem telja sig óháða öllum flokkum.
    Fulltrúar í lávarðadeildinni hafa ekki kjörgengi í almennum þingkosningum, en eru hlutgengir í kosningum til Evrópubandalagsins. Þingmaður í neðri deildinni, sem erfir aðalstign, getur hins vegar haldið sæti sínu með því að afsala sér aðalstigninni ævilangt.
    Kjörtímabil breska þingsins er fimm ár, en ríkisstjórnir sitja sjaldnast svo lengi. Forsætisráðherrann getur rofið þing nánast hvenær sem er og boðað kosningar. Frá styrjaldarlokum 1945 hefur meðallengd þinga verið 3,66 ár.
    Þingið situr mestan hluta ársins að undanskildum 10–12 vikum í ágúst til október og þriggja vikna hléi um áramótin. Fundir hefjast miðdegis og standa að jafnaði langt fram á kvöld, nema á föstudögum er þeir hefjast kl. 11 og lýkur kl. 15. Lengd þingfunda í neðri deildinni 1987–1988 var að meðaltali rúmlega 9 klst. en í lávarðadeildinni rúmlega 7 klst.
    Í neðri deildinni skiptist fundartími á þingmál sem hér segir:
    Helmingi fundartímans er varið til löggjafarstarfsemi, fjórðungi í almennar stjórnmálaumræður og fjórðungi í fyrirspurnir og umræður um störf og stefnu ríkisstjórnarinnar (Scrutiny of Government).
    Athyglisvert er að nokkrum af tíma þingsins er varið í svonefnda „delegated legislation“, en það er formleg afgreiðsla þingsins á lagafyrirmælum sem framkvæmdarvaldinu hefur verið heimilað að setja. Er þetta eins konar eftirlit þingsins með því hvernig framseldu löggjafarvaldi er beitt.
    Eins og vænta má er drýgstum tíma þingsins varið í stjórnarfrumvörp og mál sem stjórnin vill að nái fram að ganga, en einstökum þingmönnum og stjórnarandstöðunni er þó tryggður réttur til að koma sínum málum á framfæri. Á þinginu 1987–1988 var skiptingin sú að hlutur ríkisstjórnarinnar var 58%, einstakra þingmanna (backbenchers) 30% og stjórnarandstöðunnar 7%. Eitt aðalvopn stjórnarandstöðunnar er forgangsréttur hennar á hinum svonefndu „tuttugu stjórnarandstöðudögum“ (20 Opposition Days) — sem eru að jafnaði tveir á hverjum þremur vikum — til að koma að sínum málum. 17 þessara daga fær stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn til ráðstöfunar, en hinir minni 3 daga.
    Í lávarðadeildinni skiptist fundartími á mismunandi þingmál þannig að til löggjafarstarfseminnar er varið 66% tímans, 17% til almennra umræðna og 17% til fyrirspurna og umræðna um skýrslur stjórnarinnar (Scrutiny of Government).

Forsetar þingsins.
    Forseti neðri deildar þingsins (Speaker) er kjörinn í upphafi hvers þingtímabils. Mjög er vandað til vals forsetans enda þykir miklu varða að sá sem gegnir þessu ábyrgðarmikla embætti njóti óskoraðs traust og virðingar alls þingheims. Að jafnaði er kjörinn til starfans þingmaður með mikla þingreynslu og er embættið álitið vera kóróna á ferli hvers sem það hlýtur. Kjörinn forseti hættir öllum afskiptum af stjórnmálum til að tryggt sé hlutleysi hans í störfum. Núverandi forseti neðri deildarinnar er Weatherill, en hann fór fram utan flokka í síðustu þingkosningum.
    Sá ráðherra bresku ríkisstjórnarinnar, sem titlaður er „Lord Chancellor“, er sjálfkrafa forseti lávarðadeildarinnar í krafti embættis síns. Hann á sæti í ríkisstjórninni samkvæmt tilnefningu forsætisráðherrans og er æðsti maður dómsmála í Bretlandi. Hann greiðir götu ríkisstjórnarinnar í lávarðadeildinni
og beitir sér fyrir því að mál hennar nái fram að ganga. Skyldur hans sem forseta lávarðadeildarinnar eru eingöngu formlegs eðlis þar sem deildin sjálf sér um að þingsköp séu virt. Núverandi forseti lávarðadeildarinnar er Mackay lávarður af Clashfern. Hann hefur aldrei tekið virkan þátt í stjórnmálum og er fyrsti skoski lögfræðingurinn sem gegnir þessu embætti.

Löggjafarstarfsemin.
    Stjórnarfrumvörp og mál ríkisstjórnarinnar taka að sjálfsögðu mestan tíma þingsins. Sum frumvörp þurfa að fara óbreytt í gegnum báðar deildir til að öðlast lagagildi (primary legislation), en önnur sæta einfaldari meðferð (secondary legislation).
    Eins og áður hefur komið fram hefur stjórnarandstaðan ákveðna daga á hverju þingi til að koma sínum málum á framfæri, en mjög fá þeirra ná fram að ganga.
    Lagafrumvörp sæta þremur umræðum í hvorri deild með líkum hætti og gerist hér á Alþingi og má leggja þau fram í hvorri deildinni sem er. Venjan er þó sú að stefnumarkandi lagafrumvörp ríkisstjórnarinnar séu lögð fram í neðri deild.
    Lávarðadeildin getur seinkað framgangi lagafrumvarpa en ekki hindrað endanlegt samþykki þeirra. Hún getur fellt í tvígang frumvarp sem neðri deildin hefur samþykkt en lengra verður ekki komist. Í rauninni hefur lávarðadeildin farið mjög hófsamlega með þetta vald og síðan 1949 hefur neðri deildin aldrei þurft að neyta aflsmunar gagnvart lávarðadeildinni.
    Þegar deildirnar eru ósammála gengur frumvarpið á milli þeirra þar til sammæli næst. Í reynd er mikið upp úr því lagt að samkomulag náist milli deildanna til að ekki þurfi að koma til þess að neðri deildin samþykki frumvarp í trássi við lávarðadeildina.
    Þrátt fyrir takmarkað vald lávarðadeildarinnar að þessu leyti er ljóst að hún gegnir veigamiklu hlutverki í löggjafarstarfseminni. Í lávarðadeildinni eiga sæti margir menn með mikla þekkingu og reynslu og þátttaka þeirra í störfum deildarinnar tryggir vandaða og faglega meðferð þingmála. Þeir eiga ekki á hættu að missa sæti sitt í deildinni þótt þeir taki afstöðu án tillits til flokkslegra sjónarmiða eða almennra viðhorfa. Athyglisvert er að breytingar, sem gerðar eru á lagafrumvörpum í lávarðadeildinni, ná oftast fram að ganga í neðri deildinni. Og ekki má heldur gleyma því að margir mestu lögspekingar landsins sitja í lávarðadeildinni sem er æðsti áfrýjunardómstóll í ríkinu.

Þingnefndir.
     Neðri deild: Í neðri deildinni starfa tvenns konar nefndir, annars vegar löggjafarnefndir og hins vegar rannsóknarnefndir. Hlutverk þeirra fyrrnefndu er að fjalla um einstök lagafrumvörp og eru nefndarmenn kosnir sérstaklega hverju sinni. Rannsóknarnefndirnar starfa venjulega allt þingtímabilið og er þeim í sjálfsvald hvaða mál þær kjósa að rannsaka innan þess málaflokks sem þær eiga að hafa eftirlit með. Þessar rannsóknarnefndir eiga ýmislegt sammerkt með nefndunum sem kveðið er á um í 39. gr. íslensku stjórnarskrárinnar.
    Mest kveður að þeim rannsóknarnefndum sem eiga að fylgjast með starfsemi og rekstri ýmissa stofnana ríkisins. Þær koma saman a.m.k. einu sinni í viku og skila af sér tveimur til sex skýrslum á ári.
     Lávarðadeildin: Öll löggjafarstarfsemi í lávarðadeildinni fer fram á þingfundum og af þeim sökum eru þar ekki löggjafarnefndir. Af rannsóknarnefndunum eru tvær langatkvæðamestar. Efnahagsbandalagsnefndin svonefnda (The European Communities Committee) sem skipuð er 80 nefndarmönnum og starfar í 6 undirnefndum. Afraksturinn á hverju ári er að meðaltali 25 skýrslur og nýtur nefndin mikillar virðingar um gjörvalla Evrópu fyrir störf sín. Vísinda- og tækninefndin (The Science and Technology Committee) er skipuð 25 nefndarmönnum og starfar í tveimur undirnefndum. Þegar valið er í þessar nefndir er þess jafnan gætt að þangað fari menn með góða þekkingu á hvoru sviði um sig. Minna máli skiptir hvar í flokki þeir standa.

Fyrirspurnir og umræður utan dagskrár.
     Neðri deild: Eins og á Alþingi eru fyrirspurnir eitt helsta tæki þingmanna til að veita ríkisstjórninni aðhald. Hver ráðherra svarar spurningum í þinginu einu sinni á mánuði, 30–60 mínútur í senn. Þingmenn verða að leggja fram aðalspurninguna (first question) með minnst tveggja vikna fyrirvara en mega svo koma með (óvæntar) viðbótarspurningar þegar svarað er. Af þeirri ástæðu er það mikilvægt fyrir ráðherrann að reyna að sjá fyrir hvers eðlis þessar viðbótarspurningar kunni að vera. Vegna hins gífurlega fjölda fyrirspurna sem berast verður ekki nema litlum hluta þeirra svarað. Á þinginu 1987–1988 bárust um 25 þúsund spurningar en aðeins reyndist unnt að svara fjórðungi þeirra. Á sama þingi bárust um 48 þúsund skriflegar spurningar sem svarar til 220 spurninga á hvern þingdag!
    Þegar þingmenn telja brýna nauðsyn bera til að fá skjótar upplýsingar um ákveðið mál geta þeir lagt fram fyrirspurn með forgangsrétti (Private Notice
Question). Það er forseta þingsins að meta hvort slíkar fyrirspurnir skuli heimilaðar og eru venjulega leyfðar tvær til þrjár á viku.
    Þá er þingmönnum einnig fær sú leið samkvæmt þingsköpum að kveðja sér hljóðs og rökstyðja þá kröfu sína í þriggja mínútna ræðu að umræður skulu fara fram um mál sem að þeirra mati þolir enga bið (Emergency debate). Sjaldan er fallist á slíkar óskir og aðeins tvær til þrjár umræður heimilaðar á hverju þingi. Af öðrum leiðum, sem þingmönnum standa til boða, má nefna hálfrar klukkustundar umræðu við lok hvers þingfundar sem koma má á að vissum skilyrðum fullnægðum (Adjournment debate). Ráðherra getur þá verið skylt að standa fyrir svörum í allt að 15 mínútur varðandi það mál sem til umræðu er.
     Lávarðadeildin: Dagskrá hvers fundar hefst að jafnaði með fjórum munnlegum fyrirspurnum ásamt viðbótarspurningum og var 742 fyrirspurnum af þessu tagi svarað á þinginu 1987–1988. Á sama tíma var 1405 skriflegum fyrirspurnum svarað. Fyrirspurnir má einnig bera upp við lok hvers fundar og geta þær orðið tilefni umræðna. Alls urðu slíkrar fyrirspurnir 51 á þinginu 1987–1988.

Kjör þingmanna og rekstrarkostnaður þingsins.
    Árslaun þingmanna í neðri deildinni eru nú liðlega 2,4 millj. kr. eða sem svarar 200 þús. kr. á mánuði. Þau eru miðuð við ákveðinn launaflokk embættismanna ríkisins og hækka sjálfkrafa ef laun þeirra hækka. Þeir fá einnig 2,3 millj. kr. vísitölubundið ársframlag til að standa straum af kostnaði við skrifstofuhald, laun ritara eða aðstoðarmanns. Þingmenn með lögheimili utan London fá í húsnæðisstyrk eina millj. kr. á ári en þingmenn með lögheimili í London fá 125 þús. kr. Þingmenn fá greiddan allan kostnað af ferðum milli Westminster, kjördæmis og heimilis og auk þess sérstakan bílastyrk (car mileage allowance) sem fer eftir stærð eigin bifreiðar.
    Starf þeirra, sem sæti eiga í lávarðadeildinni, er ólaunað en þeir geta að vissu marki fengið endurgreiddan ýmsan daglegan kostnað sem starfinu fylgir, t.d. gistingu, ferðir, fæði og ritaraaðstoð o.s.frv.
    Leiðtoga stjórnarandstöðunnar og þremur helstu embættismönnum hennar eru greidd laun. Auk þess renna allt að 100 millj. kr. til þingflokka stjórnarandstöðunnar til að standa straum af kostnaði við starfsemi þeirra á þinginu.
    Kostnaður við rekstur þingsins 1989–1990 er talinn verða:
    Lávarðadeildin, rúmlega 2 milljarðar króna.
    Neðri deildin, tæpir 9,6 milljarðar króna.
    Viðhald og endurbætur á húsakosti þingsins, tæpir 2,7 milljarðar króna.

Útvarp og sjónvarp.
    Unnt er útvarpa beint frá báðum deildum þingsins. Sjónvarpað hefur verið frá fundum í lávarðadeildinni síðan 1985 og ákveðið hefur verið að hefja sjónvarp í tilraunaskyni frá fundum í neðri deildinni núna í nóvember. Verða í gildi mjög strangar reglur um sjónvarpsupptökuna.

Skrifstofustjórar þingsins.
    Skrifstofustjóri lávarðadeildarinnar er nefndur „skrifstofustjóri þinganna“ (The Clerk of the Parliaments).
    Hann er skipaður af drottningunni, að tillögu forsætisráðherra og er í embætti til 65 ára aldurs. Sir John Sainty hefur gegnt þessu embætti síðan 1983, en hafði fram að því verið starfsmaður við lávarðadeildina í 20 ár. Hann er fyrst og fremst ráðunautur lávarðadeildarinnar um lagatæknileg atriði og þingsköp en jafnframt yfirmaður 300 manna starfsliðs deildarinnar.
    Skrifstofustjóri neðri deildarinnar (The Clerk of the House of Commons) er skipaður af drottningunni, að tillögu forseta deildarinnar. Hann er skipaður ævilangt en lætur af störfum 65 ára gamall samkvæmt gamalli hefð. Clifford Boulton varð skrifstofustjóri 1987 en hafði fram að því verið starfsmaður við neðri deildina í 34 ár. Auk þess að vera ráðunautur forseta deildarinnar um lagatæknileg atriði og þingsköp ber hann ábyrgð á fjárreiðum og daglegum rekstri skrifstofu deildarinnar.



Viðauki III.


Samtök skrifstofustjóra þjóðþinga:



Skýrslur samtakanna.



(Tölvutækur texti ekki til.)